Ó Ó Ingibjörg
Ingibjörg, Óskar og Ómar Guðjónsbörn koma fram í Mengi föstudagskvöldið 24. mars klukkan 21. Miðaverð: 3000 krónur.
Ó Ó Ingibjörg er skipað þeim Guðjónsbörnum, Ingibjörgu, sópransöngkonu, Óskari, saxofónleikara og Ómari, gítarleikara.
Samstarf þeirra systkina hófst formlega árið 2007 er þau gáfu út hljómdiskinn Ó Ó Ingibjörg og héldu í kjölfarið fjölda tónleika víða um land. Sameiginlegur vettvangur þeirra í tónlistinni hefur aðallega verið í fjársjóði íslenskra sönglaga sem oft eru nefnd “síðasta lag fyrir fréttir”. Í flutningi þeirra systkina “klæðast” sönglögin frumlegum búningi, þar sem klassík og jass mætast og úr verður spennandi og tilraunakenndur bræðingu. Einnig eru þau með frumsamin lög eftir þá bræður Óskar og Ómar á efnisskrá sinni.
Ingibjörg stundaði nám í Tónlistarskóla Garðabæjar en framhaldsnám í Bandaríkjunum. Hún hefur sungið fjölda einsöngs- og kammertónleika, verið einsöngvari með kórum og sinfóníuhljómsveitum og sungið á íslensku óperusviði. Ingibjörg er kórstjóri Kvennakórs Garðabæjar og jafnframt stofnandi en einnig er hún söngkennari við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar.
Bræðurnir Óskar saxofónleikari og Ómar gítarleikari hafa verið áberandi í djass- og dægurlagamenningu landsins. Þeir stunduðu báðir nám við Tónlistarskóla FÍH og hafa spilað með mörgum ólíkum hljómsveitum, bæði í djass- og dægurlagageiranum. Þeir eru meðlimir í djasshljómsveitinni ADHD sem hefur m.a. gefið út fimm hljómdiska og verið einkar virk á tónleikasviðum bæði hérlendis og erlendis. Báðir hafa þeir hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin.
Ljósmynd: Gunnar Svanberg