Ástin í ýmsum myndum
Ástin í ýmsum myndum: Þrjár primadonnur syngja um ástina.
Björg Birgisdóttir, Hanna Björk Guðjónsdóttir og Ingibjörg Guðjónsdóttir ásamt píanóleikaranum Bjarna Jónatanssyni flytja blandaða söngdagskrá í Mengi laugardagskvöldið 25.mars kl. 21.
Miðaverð: 2500 krónur
Á efnisskrá eru sönglög eftir Tryggva M. Baldvinsson, Pál Ísólfsson og Jón Þórarinsson auk aría úr óperettunni Venus in Seide eftir Robert Stolz og óperunum La bohème eftir Puccini og Rusölku eftir Dvořák.
Tónleikarnir fara fram samhliða sýningum Guðmundar Lúðvíks Grétarssonar og Elísabetar Jónsdóttur & Jóhönnu Erlu sem verður opnuð fimmtudaginn 23. mars á Hönnunarmars.
Um listamennina:
Björg Birgisdóttir hóf söngnám við Söngskólann Domus Vox árið 2003, þar sem hún naut leiðsagnar Hönnu Bjarkar Guðjónsdóttur og lauk þaðan miðstigsprófi í söng. Hún útskrifaðist síðar með einsöngvarapróf frá Söngskólanum í Reykjavík þar sem Signý Sæmundsdóttir var hennar aðalkennari. Björg hefur einnig sótt masterklass hjá Janet Williams, Martha Sharp, Wolfgang Holzmair og Laura Sarti og notið leiðsagnar Anton Steingruber, Janet Haney og Norma Enns. Björg hefur einnig sungið með Kór Íslensku Óperunnar í uppfærslum Íslensku óperunnar á Il Trovatore og Carmen. Hún tók einnig þátt í uppsetningu Óp-Hópsins á Suor Angelica en þar söng hún hlutverk Suor Osminu og Suor Dolcinu.
Björg er nú búsett í Vín þar sem hún hefur sótt söngtíma m.a. hjá Gabriela Lechner.
Hanna Björk Guðjónsdóttir útskrifaðist með 8.stig frá Söngskólanum í Reykjavík vorið 1992. Hennar aðalkennari var Elín Ósk Óskarsdóttir en hún naut einnig leiðsagnar Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur og Guðmundu Elíasdóttur. Hanna Björk stundaði framhaldsnám í London hjá Ms. Gita Denise Vibyral og eftir það var hún tvo vetur í námi við tónlistaskóla Reykjavíkur hjá Rut Magnússon. Hanna Björk hefur komið víða fram sem einsöngvari við ýmis tækifæri þó einkum við kirkjulegar athafnir og sem einsöngvari með kórum. Hún hefur jafnframt verið fastameðlimur í Kór íslensku Óperunnar frá hausti 2006. Þær mæðgur Björg og Hanna Björk hafa einnig haldið nokkra tónleika saman með ýmsum listamönnum. Hanna Björk hefur kennt við einsöngsdeild Söngskólans Domus Vox frá árinu 2000 og vorið 2003 hlaut hún viðurkenningu kennsluréttinda frá The associated Board of the Royal Schools of Music.
Ingibjörg Guðjónsdóttir nam söng hjá Snæbjörgu Snæbjarnardóttur við Tónlistarskóla Garðabæjar og stundaði framhaldsnám við Háskólann í Bloomington í Indiana hjá Virgina Zeani. Hún hefur einnig numið hjá Kerstin Buhl-Möller og hinni þekktu sópransöngkonu Ileana Cotrubas. Ingibjörg hefur haldið fjölda einsöngstónleika, tekið þátt í tónlistarhátíðum, óperum og sungið einsöng með sinfóníuhljómsveitum, kammersveitum og kórum. Undanfarin ár hefur hún mikið flutt samtímatónlist og frumflutt fjölda verka íslenskra tónskálda. Ingibjörg hefur gefið út tvær geislaplötur; Óperuaríur með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Ó Ó Ingibjörg þar sem hún syngur íslensk sönglög í frumlegum búningi með bræðrum sínum, djasstónlistarmönnunum Óskari og Ómari. Ingibjörg er söngkennari við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar, stjórnar Kvennakór Garðabæjar og er listrænn stjórnandi tónleikaraðarinnar Þriðjudagsklassík í Garðabæ.
Bjarni Jónatansson lauk píanókennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1975 og stundaði síðar framhaldsnám í London hjá Philip Jenkins. Hann kenndi um skeið við Tónlistarskólann á Akureyri en frá 1982 hefur hann starfað sem píanókennari og undirleikari við Nýja Tónlistarskólann í Reykjavík. Bjarni hefur sótt fjölda námskeiða í ljóðasöng heima og erlendis og komið víða fram sem undirleikari með kórum og einsöngvurum. Hann lauk prófi í orgelleik frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar árið 1996 og starfar einnig sem orgelleikari.
◊◊◊◊◊◊◊◊◊◊◊◊◊◊◊◊◊◊◊◊◊◊◊◊◊◊◊◊◊◊◊◊◊◊◊◊◊◊◊◊◊◊◊◊◊◊◊◊
Concert with opera singers Ingibjörg Guðjónsdóttir, Hanna Björk Guðjónsdóttir & Björg Birgisdóttir. Joined by Bjarni Jonatansson on piano.
Icelandic songs by e.g. Tryggvi M. Baldvinsson, Páll Ísólfsson and Jón Þórarinsson and arias from Rusalka, La bohème & Venus in Seide and more.
Starts at 9m.
Tickets: 2500 ISK