lokkurinn.jpg

Lokkurinn & Huldan

Lilja María Ásmundsdóttir og Berglind María Tómasdóttir munu flytja ný verk samin fyrir hljóðfærin Lokk og Huldu þann 29. apríl í Mengi. Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir, Ragnheiður Erla Björnsdóttir og Stefán Ólafur Ólafsson eru meðal þeirra tónskálda sem eiga verk á tónleikunum.

Hulda er strengjahljóðfæri með innbyggðum ljósabúnaði sem stýrist af því hvernig leikið er á hljóðfærið. Lilja María hlaut styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna sumarið 2016 til að þróa hljóð- og ljósskúlptúrinn Huldu undir handleiðslu Berglindar Maríu og Jóns Marinós Jónssonar, fiðlusmiðs. Verkefnið var tilnefnt til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands. Þegar leikið er á hljóðfærið fyllist rýmið umhverfis Huldu af hljóðum, munstrum og litum sem eru á stöðugri breytingu.

Hljóðfærið Lokkur er sett saman úr gömlum rokk og langspili og smíðað af Berglindi í félagi við Jón Marinó Jónsson og Auði Alfífu Ketilsdóttur. Útgangspunkturinn var að búa til ímyndað sögulegt hljóðfæri og ljá því sögusviðið Nýja-Ísland í Norður-Ameríku einhvern tímann snemma á 20. öldinni.

Sjónrænn heimur tónleikanna er innsetning sem ljós Huldu munu hafa áhrif á en efniviðurinn sem er valinn í uppsetninguna bregst við ljósum skúlptúrsins á mismunandi hátt. Hlutverk innsetningarinnar er að endurspegla innra líf mannverunnar; allt það sem er hulið og óáþreifanlegt. Þessi hugmynd er þannig bæði vísun í nafn hljóðfærisins; Hulda og vísun í skynjunina eða það sem býr innra með mannverunni; tilfinningar, hugsanir, minningar og skynjun hennar á umheiminum. Fylgst verður með Huldu ferðast um rýmið, samtali hennar við Lokkinn og smám saman afhjúpast mismunandi sjónarhorn þessa ímyndaða landslags af innra lífi mannverunnar.

Tónleikarnir eru styrktir af Tónlistarsjóði.

Í Mengi, laugardagskvöldið 29. apríl klukkan 21.

Miðaverð: 2500 krónur.

∞∞∞

Berglind María Tómasdóttir er flautuleikari og tónskáld sem vinnur þvert á miðla. Í verkum sínum leitast hún við að kanna ímyndir og erkitýpur sem og tónlist sem félagslegt fyrirbæri. Sem flautuleikari hefur Berglind komið fram á hátíðum víðs vegar í Bandaríkjunum og á Íslandi. Hún hefur jafnframt leikið inn á fjölda hljóðrita, meðal annars sem einleikari ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Vladimir Ashkenazy. Verk Berglindar hafa meðal annars verið pöntuð og flutt á vegum Flautusamtaka Bandaríkjanna (The National Flute Association), Norrænna músíkdaga, Myrkra músíkdaga og Listahátíðar í Reykjavík. Berglind stundaði nám í flautuleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og Konunglega danska konservatoríið og lauk doktorsprófi í flutningi samtímatónlistar frá Kaliforníuháskóla í San Diego árið 2013. Berglind er dósent við Listaháskóla Íslands.

http://berglindtomasdottir.com/

Lilja María Ásmundsdóttir lauk B.Mus.-prófi í píanóleik vorið 2016 frá Listaháskóla Íslands undir handleiðslu Peters Máté. Áður stundaði hún nám við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar hjá Þórunni Huldu Guðmundsdóttur. Hún lauk framhaldsprófi þaðan vorið 2013 samhliða því að ljúka stúdentsprófi af myndlistarbraut frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ þar sem lokaverkefni hennar var frumgerð hljóð- og ljósskúlptúrsins Huldu. Síðasta sumar hlaut hún styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að þróa skúlptúrinn, en verkefnið var eitt af fimm verkefnum tilnefnt til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands. Lilja var einn af fjórum sigurvegurum í keppninni Ungir einleikarar og lék í kjölfarið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands í janúar 2015. Haustið 2016 var Lilja í starfsnámi hjá píanistanum Sarah Nicolls í Brighton þar sem þær unnu saman að hugmyndum tengdum innsetningum og hljóðskúlptúrum.

∞∞∞∞∞∞∞∞∞∞∞∞∞

∞∞∞∞∞∞∞∞∞∞∞∞∞

Lilja María Ásmundsdóttir and Berglind María Tómasdóttir will perform pieces written for the instruments Lokkur and Hulda. Among the pieces that will be performed are new compositions by Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir, Ragnheiður Erla Björnsdóttir and Stefán Ólafur Ólafsson.

Hulda is a string instrument that produces both sound and light. The instrument has built in lights so when it’s played the surroundings are filled with sounds, patterns and colours that are constantly changing. Lilja María received a grant from the Icelandic Student Innovation Fund last summer to develop the instrument under the supervision of Berglind María and Jón Marinó Jónsson, violin maker. The project was nominated for The President’s Innovation Award.

Lokkur is an instrument which can be described as a hybrid of the Icelandic musical instrument Langspil and a spinning wheel. Berglind María made the instrument in collaboration with Jón Marinó Jónsson and Auður Alfífa Ketilsdóttir.

The visual world of the concert is an installation made out of material that is affected by the lights of Hulda in different ways. The installation is meant to portray the whole inner life of the human being, everything that’s hidden and intangible. The installation is therefore, both a contemplation on the name of the instrument; Hulda, or something that’s hidden, and a visual representation of the inner life of the human being; emotions, thoughts and memories. Hulda moves around the space and slowly different perspectives of this imaginary landscape of the inner life of the human being is revealed.

Mengi, Saturday, April 29th at 9pm.

Tickets: 2500 ISK

◊◊◊◊◊

Við minnum á klippikort Mengis sem kostar 16.000 krónur og veitir aðgang að tíu einstökum viðburðum að eigin vali. Klippikortið er ekki bundið við einstakling. Hægt er að bjóða vinum sínum með. Hægt er að kaupa kortið fyrir og eftir viðburði og á opnunartíma verslunar í Mengi við Óðinsgötu 2.

◊◊◊◊◊

We encourage you to buy Mengi punch card for 16.000 krónur. The card gives you access to ten exciting events at Mengi of your own choice. Not limited to one person - you can take your friends with you. The card can be bought at Mengi during the opening of our shop or before or after events.