Annað tilraunakvöld Snitselsins
Íslenskt Snitsel - Tilraunakvöld nr. 2 fer fram í Mengi kl 20:30 miðvikudagskvöldið 25. október.
Við Loji og Tinna Ottesen erum ferlega spennt fyrir þessu kvöldi og lítum svo á að öll sú reynsla sem ávannst fyrir mánuði komi að góðum notum að þessu sinni.
Eins og sumir vita þá er Snitselið rannsókn á áhugaskrásetjaranum, þessum einmanna úlfi íslensku kvikmyndagerðarinnar. Þetta er oftast karlmaður á miðjum aldri sem í frítíma sínum skrásetur og myndar sitt umhverfi, sinn bæ eða fjölskyldu, einungis með myndavél og áhugann að vopni. Með því að einblína á þeirra vinnu og það efni sem þeir hafa skilið eftir sig má draga nýja mynd af land og þjóð.
En með því að tala við persónuna á bakvið vélina má heyra sögu hinnar íslensku stórfjölskyldu.
Það er nákvæmlega það sem við ætlum að gera á öðru tilraunakvöldi Snitselsins í Mengi; að bjóða okkar uppáhalds áhugaskrásetjara til að deila sinni reynslu með okkur.