adda.jpg

Adda

Adda spilar tónlist sem á sér rætur í hetju- og andhetjuleiðangri hennar um innra landslag sjálfsins. Á þeirri leið umbreytast þráhyggjur í möntrur, sjálfið verður taugahinsegin og sníður sér stakk úr femínisma og róttækri heimspeki. Geðlækningar eru teknar til yfirheyrslu en fyrirgefning geðlækna þó vís og unnið er úr áföllum með hjálp íslenskra fjalla, kvenna og sæva.

Á tónleikunum spilar Adda lög frá sólóferli síðustu tíu ára, m.a. af stuttskífunni My brain EP en um hana sagði Bob Cluness tónlistargagnrýnandi á Grapevine að hún væri “a wonderfully austere, haunting body of folk songs”.

Með Öddu munu koma fram Sunna Ingólfsdóttir söngkona og Karl James Pestka víóluleikari. Sérstakur gestur á tónleikunum verður Ólöf Arnalds.

Húsið opnar kl. 20:30 | Tónleikar hefjast kl. 21 | Miðaverð er 2.000 kr.

Arnþrúður Ingólfsdóttir, Adda, hóf sólóferil fyrir 10 árum en hefur starfað á tónlistarsviðinu mun lengur og á fjölbreytta sögu. Sem barn og unglingur var hún hlýðinn og kvíðinn píanónemandi um árabil, um aldamótin áköf raftónlistarstelpa í tónlistargrasrót Reykjavíkur, þá ofvirkur og hress tónlistarkennari á Hallormsstað og næst einmanna nemandi við hljóðfræðideild tónlistarakademíunnar í Haag, Hollandi. Við tók djúp geðlægð og síðan löng vegferð heilunar, nýrra tengsla og heilsuhælisdvala. Í kjölfarið hófust rannsóknir Öddu á mótun sjálfsins í klaustrum, akademíum, aktívisma og samhjálparhópum.

Það var svo í Búdapest í skiptinámi sem hún fann loks sína rödd með klassískan gítar í hönd, þar sem hún samdi lög til sefunar og svefns. Adda hefur gefið út eina stuttskífu, My brain, sem var afrakstur fjögurra ára af tónleikahaldi, æfingum og samstarfi. Plötuna kynnti hún með puttaferðalagi í kringum landið þar sem hún spilaði heimatónleika hjá vinum og vandamönnum. Í gegnum árin hefur hún víkkað áheyrendahóp sinn jafnt og þétt og meðal annars komið fram á kaffihúsum, grasrótartónleikum innan hinsegin- og femínistasenunnar, í Ríkisútvarpinu, á heilsuhælinu í Hveragerði, á verðlaunaafhendingum og á fjölmörgum on og off-venue stöðum á Airwaves.