130269265_3573208749458737_1113294688638806220_o.jpg

MIRA!

Þórdís Eyvör framhaldsskólakennari og Orri Jónsson ljósmyndari og tónlistarmaður höfðu búið í Toronto í Kanada í tæp tvö ár þegar þau ákváðu að skipta um gír og dvelja í litlu fjallaþorpi í suðurhluta Mexíkó með börnum sínum fjórum. Á þessum tíma var Eyja tvítug og tiltölulega nýkomin úr Lýðháskóla í Danmerku, þar sem hún kynntist þáverandi kærasta, Vasilis, sem slóst með í för. Kári var átján ára og fannst hann lítið hafa grætt á high school í Toronto og menntaskóla á Íslandi. Flóki og Þorri voru búnir að vera í einn og hálfan vetur í grunnskóla í Kanada þegar fjölskyldan ákvað að nú væri komin tími á frekari ævintýri.

Hugmyndin var að endurhugsa nám og kennslu, brjótast út úr hraða borgarsamfélags og hægja á sér. Fjölskyldan ákvað að sleppa öllum snjalltækjum og sjónvarpsglápi, en gefa sér meiri tíma til lesturs og sköpunar, til samveru og útiveru og skrásetja þessa námstilraun. Þórdís og Orri leituðu til Mengis og þeim til mikillar ánægju var Mengi til í að taka þátt í og styrkja verkefnið.

Á þessari sýningu getur að líta brot af þeirri vinnu sem átti sér stað á meðan fjölskyldan dvaldi í Oaxaca héraði í Mexíkó frá janúar til maí 2016. Hér beinum við sjónum að námi Þorra og Flóka sem voru á þessum tíma 6 og 8 ára. Myndirnar eru allar teiknaðar af þeim og hljóðupptökurnar eru samtöl okkar við þá bræður. Á hljóðupptökum má einnig heyra brot úr umhverfi okkar og hljóðheimi.

Vert er að taka fram að þar sem fjölskyldan var nýflutt frá Kanada voru tvö ár síðan Flóki hafði verið í íslenskum skóla og Þorri hafði verið á leikskólaaldri þegar fjölskyldan flutti erlendis. Þeir voru þar af leiðandi óvanir að skrifa íslensku. Þar sem Vasilis var hluti af hópnum voru samskiptin í Mexíkó að miklu leyti á ensku.

Dagarnir voru gjarnan þannig að við vöknuðum snemma og hófum daginn á örstuttu spænskunámi. Eftir spænskuna var deginum venjulega skipt í tvo hluta út frá því hver átti að leiðbeina Flóka og Þorra þann daginn. 

Á mánudegi var til dæmis Flóki með Vasilis í grískri goðafræði til hádegis og eftir hádegi var hann síðan með Þorra og Eyju í matreiðslu eða bakstri. Næsta dag fór Flóki kannski í hjólaferð með Kára og síðan að lesa íslenska bók og spila krossgátuspil með Þórdísi. Á meðan var Þorri ef til vill í Oaxacaborg með Orra að skoða listasafn eða á grafíkverkstæði. Á miðvikudegi var tónlistarkennsla og hljómsveitaræfing og á fimmtudegi fór fjölskyldan kannski saman að skoða rústir Maya. Með þessu móti fengu yngstu drengirnir fjölbreytta örvun og við hin höfðum tíma til að vinna að eigin verkefnum. Orri var m.a. að vinna að ljósmyndabók, Vasilis að semja tónlist og skrifa ljóð, Eyja að teikna, skrifa og sækja um framhaldsnám, Kári að lesa og stunda útivist, Þórdís að kynna sér mexíkóska menningu og matargerð, o.s.frv. Öll lásum við mikið, héldum dagbækur og stunduðum einhvers konar listsköpun.

Við komumst fljótt að því að til þess að allir hefðu næði og tíma til þess að sinna sínum hugðarefnum þá væri best að skipuleggja dagana þannig að við skiptumst á að leiðbeina Þorra og Flóka. Hvert okkar fullorðnu kom með hugmyndir að námi sem gæti hentað strákunum og féll innan þeirra og okkar áhugasviðs. 

Eyja var með kennslustundir í sögugerð og persónusköpun. Hún kenndi þeim jafnframt um tísku og ræddi við þá um kynjajafnrétti. Eyja kenndi strákunum að baka og elda mat, leggja á borð og ganga frá eftir matinn, kynnti fyrir þeim grænmetisfæði og fleira matartengt.

Kári fór með strákana í langa göngutúra, oftast eitthvað upp í fjallshlíðar. Þeir töluðu saman um dýr og náttúru, stjörnur og geiminn, auk þess sem Kári spilaði við þá fótbolta og fór með þeim í hjólaferðir.

Vasilis kenndi strákunum gríska goðafræði og sagði þeim sögur sem þeir teiknuðu síðan út frá. Hann stofnaði með þeim rokkhljómsveitina The Rocking Pigs og þeir sömdu lög og texta, skipulögðu tónleika og æfðu stíft. 

Orri fór með þeim á listasöfn og sýndi þeim aðferðir og tól til þess að búa til myndlist. Þeir hlustuðu saman á tónlist og lærðu um Mexíkóska sögu og menningu.

Með Þórdísi æfðu drengirnir sig að lesa og skrifa á íslensku. Þeir skrifuðu dagbækur og bréf til vina, leystu krossgátur og hlustuðu á sögur. Með henni fóru þeir líka yfir grunnatriði í stærðfræði, gjarnan í gegnum spil og leiki. 

Á kvöldin sat fjölskyldan saman í stofunni, oft við arineld því að kvöldin voru svöl í fjallaþorpinu, og las. Þau skiptust á að lesa upphátt úr skáldsögum, til dæmis bókunum um Narníu. Stundum var spilað á spil, lesið upphátt úr eigin skrifum- ljóðum, dagbókarfærslum eða hugleiðingum, eða hlustað á tónlist sem einhver var að semja.

Á sýningunni fá gestir nasaþef af því sem Flóki og Þorri voru að læra þessa mánuði í San Pablo Etla. Á veggjum eru eingöngu myndir eftir þá tvo og á hljóðupptökum eru þeirra raddir í forgrunni. Undir lok ferðarinnar áttu bræðurnir báðir afmæli; Flóki varð 9 ára og Þorri varð 7 ára. 

Áhugasömum er bent á að skoða efni sem tengist verkefninu og er hluti af vefsíðu sem fjölskyldan hélt úti á meðan á dvölinni stóð. Á vefslóðinni www.mengi.net/mira er að finna meira efni eftir alla meðlimi fjölskyldunnar, enda er sýningin hér, eins og áður sagði, tileinkuð námi yngstu drengjanna. Meðal þess sem skoða má þar eru dagbókarbrot, greinar og hugleiðingar, ljósmyndir og stutt myndbönd. Markmiðið er svo að gera þessu verkefni greinagóð skil í bók sem unnin er uppúr því efni sem varð til á þessum tíma, ásamt eftirá hugleiðingum um lærdóminn sem við drógum af þessari reynslu.