Back to All Events

Cauda Collective / Ferðalag til Frakklands og tunglsins

  • MENGI 2 Óðinsgata Reykjavík, 101 Iceland (map)

Buy Tickets / Kaupa miða

Cauda Collective er nýr kammerhópur sem hefur það að markmiði að blanda saman stórverkum klassískrar tónlistar við nýja tónlist og flétta saman við önnur listform, s.s. myndlist, kvikmyndir, leiklist og dans. Í starfi hópsins er leitað skapandi leiða til að miðla tónlist og brjóta upp hefðbundna tónleikaformið svo að útkoman verði áhugaverð fyrir áhorfendur og flytjendur, en þó alltaf með það að leiðarljósi að þjóna tónlistinni.

Fyrstu tónleikar Caudu verða í Mengi þann 17. maí kl. 21 en þeir bera heitið Ferðalag til Frakklands og tunglsins. Þar munu flytjendur leiða hlustandann í ferðalag sem hefst í Frakklandi, er þaðan skotið út í geim og endar á sporbaug um tunglið.

Verkin sem flutt verða eru:

-Sónata fyrir fiðlu og selló eftir Maurice Ravel
-Ferðalag til tunglsins eftir Sigrúnu Harðardóttur
-Poco Apollo eftir Halldór Eldjárn

Maurice Ravel samdi sónötuna fyrir fiðlu og selló á árunum 1920-1922 og tileinkaði hana minningu Claude Debussy sem lést árið 1918. Á árunum sem sónatan var samin var Ravel talinn helsta tónskáld Frakka en hann hafði þá sérstaka óbeit á vinsældum og hafnaði heiðursnafnbótum og prjáli. Í sónötunni leitaði Ravel leiða til að strípa niður sónötuna í eins litlar einingar og hægt væri, og tókst að semja sónötu í aðeins tveimur röddum þar sem að laglínur í kontrapunkti eru bæði burðarstólpi og skraut verksins. 

Ferðalag til tunglsins er nýtt verk fyrir fiðlu og selló eftir Sigrúnu Harðardóttur. Verkið er samið við frönsku kvikmyndina " Le Voyage dans la Lune " eftir  Georges Méliès sem kom út árið 1902. Kvikmyndin fjallar um hóp geimfara sem fara á tunglið, hitta þar Seleníta, íbúa tunglsins, sem líst ekkert á þessa óboðnu gesti. Geimförunum tekst að sleppa undan Selenítunum og komast öruggir aftur heim á jörðina þar sem jarðarbúar fagna afrekum þeirra. Kvikmyndin er leikin af stórum hóp franskra leikara, leiddum af leikstjóranum sjálfum sem fer með hlutverk Professor Barbenfouillis. Ýktur leikstíll einkennir myndina, en einnig áhrifamiklar tæknibrellur sem voru mikil nýjung á sínum tíma. Allt var lagt í gerð myndarinnar, hún var einkar kostnaðarsöm og tók um þrjá mánuði að kvikmynda. 
Kvikmyndin er "þögul", en í hverju kvikmyndahúsi var gjarnan sögumaður sem útskýrði framvindu sögunnar og tónlistarmmaður sem spilaði hljóð effekta og tónlist. Méliès var mikill tónlistaráhugamaður og valdi sérstök tónverk fyrir margar af sínum kvikmyndum, en af einhverjum ástæðum ekki þessa, sem veitti kvikmyndahúsunum það frelsi að velja þá tónlist sem þeim þótti passa best. Ýmis tónskáld hafa samið tónlist við kvikmyndina, m.a.  Ezra Read,  Frederick Hodges, barnabarnabarn  Méliès; Lawrence Lehérissey og franska hljómsveitin Air. 
Tónlist Sigrúnar Harðardóttur við kvikmyndiana er kaflaskipt eftir hverjum ramma úr kvikmyndinni. Myndavélin sjálf hreyfist aldrei, heldur er bara klippt á milli atriða á nýjum stað. Nýr staður fær nýjan hljóðheim. Sellóið og fiðlan skiptast á að leiða, með hjálp loop pedals og söngradda. Tónlistin byggir mikið á endurtekningum og laglínur stjórnast af því sem gerist í kvikmyndinni á hverjum tíma. 

Á tónleikunum verða leiknir þrír þættir úr tónverkinu Poco Apollo, sem er sjálfskapandi (e. generative) tónverk eftir Halldór Eldjárn, forritara og tónlistarmann. Það er unnið upp úr ljósmyndasafni geimferðastofnunarinnar NASA sem inniheldur í kringum 15.000 ljósmyndir sem allar voru teknar á tunglinu á árinu 1969-1975 í könnunarferðum okkar þar. Þessi útsetning er sérstaklega gerð fyrir kammerhópinn Cauda Collective.
Verkið í heild er í raun tölvuforrit sem greinir hverja mynd úr þessu safni og semur lítið tónverk út frá þeirri stemmingu sem það greinir í myndinni. Það tónverk sem kemur út úr hverri mynd er einkvæmt fyrir þá mynd. Forritið notar sér þessi gögn og lýtur einnig listrænum ákvörðunum tónskáldsins um blæbrigði og hljóðheim. Verkið er aðgengilegt inni á http://pocoapollo.hdor.is en þar hægt að flakka í gegnum myndirnar og hlusta

Flytjendur eru:

Halldór Eldjárn: rafhljóð og slagverk
Sigrún Harðardóttir: fiðla
Þórdís Gerður Jónsdóttir: selló

Húsið opnar kl. 20:30 - Miðaverð er 2.500 krónur.

 ∞ ∞ ∞ ∞ ∞ ∞ ∞ ∞ ∞ ∞

Cauda Collective is a chamber music group that seeks new and innovative ways to perform classical and modern music, collaborating with visual artists, theatre makers, computer programmers and anyone who is open to experiments. 

On the 17th of May Cauda will have it’s fyrst performance in Iceland in a concert called Journey to France and the moon. The program consists of Sonata for violin and cello by Maurice Ravel, new music by Sigrún Harðardóttir to the french film La voyage dans le lune by Georges Meliés from 1902 and a new version of Halldór Eldjárn’s generative piecePoco Apollo. In his piece Halldór, who is a composer, percussionist and computer programmer, has developed a computer program which makes music to photographs from NASA’s Apollo voyages.

Performers in the concert are Sigrún Harðardóttir (composer and violin), Halldór Eldjárn (composer, percussion and electronics) and Þórdís Gerður Jónsdóttir (cello). Sigrún and Þórdís performed the Ravel sonata and Sigrún’s new film score on the 9th of May in Ercourt, France where they were artists in residency in La Centre Pompadour.

Video and design by Eva Björg Harðardóttir. 

Doors at 20:30 - Tickets are 2.500 krónur.