Back to All Events

Kímeruhátíð - útgáfuteiti

  • MENGI 2 Óðinsgata Reykjavík, 101 Iceland (map)

Bókaútgáfan Sæmundur efnir til Kímeruhátíðar í tilefni af útkomu tveggja bóka.

Hátíðin verður haldin í Mengi, Óðinsgötu, þriðjudaginn 23. apríl (á fæðingardegi Halldórs Laxness og dánardægri Williams Shakespeares) kl. 20.

Hermann Stefánsson og Samanta Schweblin lesa úr verkum sínum og bækur þeirra verða til sölu og áritunar á staðnum. Schweblin les upp á spænsku en Oddný Eir Ævarsdóttir les íslenska þýðingu. Á dagskránni er auk þess brúðuleikritið Hafmeyjur og hákarlar. Síðast en ekki síst stígur Megas á stokk og tekur lagið með hljómsveitinni Kímerurnar. Hana skipa: Ólafur Björn Ólafsson (trommur), Hermann Stefánsson (bassi), Ragnar Helgi Ólafsson (gítar), Ragnheiður Ólafsdóttir (bakrödd) og Tómas Guðni Eggertsson (píanó).

Kynnir er Bjarni Harðarson. Sæmundur býður upp á görótta drykki.

Dyr opnast
Hermann Stefánsson
Hvað eiga mannréttindi, svefnfarir, Esjan og bókaáritanir sameiginlegt? Hvernig skilgreinir maður fíl? Hvernig tengjast vitaverðir, leðurblökur, ljóstírur og póstsendingar? Er Guð í húsinu? Er Dauðinn á tónleikunum? Hvað er á bakvið dyrnar? Dyr opnast ber undirtitilinn: Lífið er trúnaðarmál en tegundarheiti bókarinnar er dregið af grísku kvikindi: Kímerubók. Hún hefur að geyma smásögur og smáprósa, sagnaþætti, æviágrip, tilraunir og esseyjur, prakkaraprósa og prósaljóð, fílófóseringar og firrur, lýrískar smámyndir og uppljóstrun um Esjuna. Dyr opnast er fjórtánda skáldverk Hermanns Stefánssonar sem síðast sendi frá sér skáldsöguna Bjargræði (2016) sem hlaut einróma lof gagnrýnenda.

Bjargfæri
Samantha Schweblin
Jón Hallur Stefánsson íslenskaði

... Þetta er að gerast, Amanda. Ég krýp við rúmstokkinn þinn í einni sjúkrastofunni á heilsugæslunni. Tíminn er á þrotum og áður en hann rennur út þarf að finna vendipunktinn.
Ung kona liggur dauðvona á sjúkrabeði. Hjá henni situr drengur, óskyldur henni, sem hjálpar henni að segja sögu sína. Saman reyna þau að grafast fyrir um þá hræðilegu atburði sem hafa kippt fótunum undan tilveru ungu konunnar og fjölskyldu hennar.
Bjargfæri er nístandi hryllingssaga úr nútímanum, þéttofin og næstum óbærilega spennandi örlagasaga um það sem við óttumst mest.

Samanta Schweblin er fædd í Argentínu árið 1978 og býr í Berlín. Hún er ein skærasta stjarnan í bókmenntum hins spænskumælandi heims nú um stundir, skrifar bæði smásögur og skáldsögur og þykir einhver hæfileikaríkasti höfundur sem um langa hríð hefur komið frá Suður-Ameríku. Bjargfæri er hennar fyrsta skáldsaga; hún hefur verið þýdd á yfir tuttugu tungumál og fengið frábærar viðtökur gagnrýnenda og lesenda. Schweblin er gestur Bókmenntahátíðar í Reykjavík.