Nú líður senn að afhendingu Kraumsverðlaunanna fyrir plötuuppskeru árisins 2021.
En rétt áður en að því kemur langar okkur að ljúka við Kraumstónleikaseríu ársins 2020 með tveimur frábærum listamönnum sem tilnefnd voru í fyrra.
Það eru þau Andartak og Gugusar en þau voru tilnefnd fyrir plötur sínar Constructive Metabolism og Listen To This Twice.
Tónleikarnir hefjast stundvíslega kl. 20:00 föstudaginn 10. desember.
Húsið opnar kl. 19:30.
Miðaverð eru litlar 1.500 krónur og þá má fyrirframpanta hér: https://forms.gle/EeBkbKVd3AYqKRJP8
Andartak (Arnór Kári) er alinn upp í Fjölvíddarfirði þar sem hann skoðar hinar ýmsu leiðir til listrænnar tjáningar. Þar með talin er raftónlist, myndlist, ljóðlist og ljósmyndun. Markmið hans er að bjóða listunnendum upp á töfrandi upplifun, aukna innsýn í eigin vitund þar sem einstaklingurinn getur fengið líkamlega heilun og fundið svör við stóru spurningum lífsins, já, eða einfaldlega dansað eins og leikræni villingurinn sem við höfum öll að geyma í berskjaldaðri hjartastöðinni.
Gugusar er aðeins 17 ára gömul tónlistakona sem kom fyrst fram í Músíktilraunum árið 2019. Gugusar eða Guðlaug Sóley Höskuldsdóttir gaf út sína fyrstu plötu Listen To This Twice árið 2020 og hefur komið víða fram síðan. Hún semur alla sína tónlist sjálf í svefnherberginu heima og hafa tónsmíðarnar nú þegar vakið verðskuldaða athygli.
Aðstandandi Kraumslistans og Kraumsverðlaunanna er tónlistarsjóðurinn Kraumur sem starfræktur er á vegum Auroru velgerðasjóðs. Kraumur hefur það að meginhlutverki að efla íslenskt tónlistarlíf, fyrst og fremst með stuðningi við unga listamenn, auðvelda þeim að vinna að listsköpun sinni og koma verkum sínum á framfæri innanlands sem utan. Auk þess að starfrækja Kraum styður Aurora velgerðarsjóður við þróun og menningu hérlendis sem erlendis í gegnum margvísleg verkefni sem er ætlað að örva samfélög á sjálfbæran máta.
Tónleikaserían sem Mengi heldur utan um er í formi mánaðarlegra viðburða þar sem Mengi býður tónlistarfólki sem ýmist var tilnefnt eða vann til verðlauna fyrir sínar frábæru plötur árið 2020 og 2021 - en það er Mengi einlæg ánægja að fá að halda utan um slíka viðburði og hlökkum við mikið til að fagna velgengni þeirra með tónleikaviðburðum á Óðinsgötunni.