Fimmtudaginn 17. febrúar nk. kl.17 mun Ingibjörg Elsa Turchi koma fram með hinum fræknu Magnúsi Trygvasyni Eliassen, Tuma Árnasyni, Hróðmari Sigurðssyni og Magnúsi Jóhanni Ragnarssyni. Hópurinn mun einungis leika nýtt efni af væntanlegri plötu. Ef til vill verða þó gamlir slagarar einnig á dagskrá. Hver veit? Húsið opnar kl. 16:30 og er aðgangseyrir 2.500 kr.
Við bjóðum gestum að tryggja sér miða hér: https://forms.gle/FeLoy5EV4tNUVZDu8
Ingibjörg Elsa Turchi: Rafbassi
Magnús Trygvason Eliassen: Trommur
Tumi Árnason: Tenór saxófónn
Hróðmar Sigurðsson: Rafgítar
Magnús Jóhann Ragnarsson: Píanó
-------
Bassaleikarinn og tónskáldið Ingibjörg Elsa Turchi hefur verið afar sýnileg í íslensku tónlistarlífi síðustu árin og hefur komið fram með mörgum af ástsælustu listamönnum þjóðarinnar, svo sem Emilíönu Torrini, Bubba Morthens, Stuðmönnum og Teiti Magnússyni. Hún hefur einnig samið verk fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands og verið í hljómsveit í Þjóðleikhúsinu. Hún gaf út stuttskífuna Wood/Work árið 2017 þar sem rafbassinn var í aðalhlutverki. Í júlí 2020 gaf Ingibjörg svo út sína fyrstu plötu í fullri lengd, Meliae, og hélt áfram að víkka út hljóðheim sinn með hjálp hljómsveitar sinnar. Árið 2020 hlaut platan Meliae Kraumsverðlaunin, var valin plata ársins af Morgunblaðinu og straum.is og fékk 5 stjörnur í gagnrýni Morgunblaðsins. Á Íslensku tónlistarverðlaununum 2021 hlaut Ingibjörg sex tilnefningar og hlaut tvenn verðlaun, annars vegar fyrir plötu ársins í flokki Djass-og blústónlistar og fyrir Upptökustjórn í Opnum flokki. Í september 2021 var platan svo tilnefnd til Hyundai Nordic Music Prize. Einnig var hljómsveitin valin til að fara fyrir hönd Íslands á Nordic Jazz Comets 2020 og í kjölfarið á Finnlandstúr í september 2021.