Sara Riel opnar sýninguna Svarthol í Stak og Mengi 12. Nóvember 2022 kl. 16 – 18. Hægt verður að ganga á milli rýmanna tveggja á meðan á opnun stendur.
Sara Riel hefur undanfarið unnið að varanlegu glerverki sem verður komið fyrir í einum af gluggum Mengis og verður frumsýnt á opnun. Sama dag á sama tíma byrjar Sara að vinna að hinum hluta innsetningarinnar sem er málað veggverk í Stak. Verkið verður í vinnslu fram til 4. desember þegar sýningunni lýkur.
Gestir eru eindregið hvattir til að mæta í Stak á milli 12-15:30 frá mánudegi til laugardags og fylgjast með framvindu veggverksins og eiga í samtali við listamanninn þar til vinnslu verksins lýkur og sýningunni einnig, þann 4. desember.
Hugmyndin er að tengja rýmin tvö á myndrænan máta og skapa þannig hugræn göng á milli þeirra. Mætti jafnvel kalla þau ormagöng.
“Svarthol geta verið á stærð við atom en með massa á við fjöll”
Nánari upplýsingar um listamann má finna á www.sarariel.com og á instagram @_sarariel_
Sýningin er styrkt af Myndlistarsjóði.