Svikaskáld bjóða til útgáfuhófs í Mengi, Óðinsgötu 2, fimmtudaginn 21. nóvember kl 17, til að fagna útkomu tveggja nýrra ljóðabóka; Hérna eru fjöllin blá eftir Melkorku Ólafsdóttur & Sítrónur og náttmyrkur eftir Ragnheiði Hörpu Leifsdóttur.
Bókin er fáanleg í forsölu á www.svikaskald.com og geta kostunaraðilar nálgast árituð eintök sín í útgáfuhófinu.
Raddir þeirra Ragnheiðar Hörpu og Melkorku eru um margt ólíkar en efnistök bókanna eru þó skyld. Líkt og verið hefur aðalsmerki Svikaskálda láta þær sig veruleika kvenna varða og rannsaka með skrifum sínum ýmsar hliðar kvenlegrar tilveru. Þar er ekkert undanskilið, lesandinn kynnist öllu í senn; kómískum, persónulegum, stórkostlegum, viðkvæmum, sársaukafullum og valdeflandi hliðum kvenna og situr eftir einhvers vísari um tilveruna almennt, sama hvers kyns hán er.
Ljóðalestur, léttar veitingar og allir velkomnir!
Sendingar
Vinkonu minni finnst
að fjöllin
fjöllin og hann
muni éta hana kæfa hana
kæfa hana fyrst éta hana svo
svo hún breytir þeim í pappír
brýtur þau rólega í tvennt og svo fernt
ég hlakka alltaf til sendinganna
opna bréfin varlega
anda að mér uppþornuðum vonum
halla mér aftur í sunnudagsstól
fjarlægðin
og marið er ekki lengur blátt
fjöllin eru blá
hérna eru fjöllin blá
- Melkorka Ólafsdóttir
Eyja
Hvar sem ég er í heiminum, hversu týnd eða sorgmædd sem ég er, segir móðir mín mér að ganga niður að sjó og hugsa til allra þeirra sem horfa á sama hafið og sjá öldurnar brotna við bergið. Öfgarnar á eyjunni þenja út skilningarvitin. Endurtekningin í bárunni er stöðug áminning: Þú ert á lífi og þú ert ekki ein.
- Ragnheiður Harpa Leifsdóttir
Back to All Events
Earlier Event: November 16
Pastel ritröð - útgáfuhóf
Later Event: November 22
Unfiled sjónleikar 1 — Unfiled A/V Session 1