Á þessum miðnæturtónleikum í Mengi mætast sannarlega ljós og skuggar, en þeir hefjast á meistaraverki eistneska tónskáldsins Arvo Pärt, Fratres. Verkið var meðal þeirra fyrstu sem tónskáldið samdi í hinum þýða og tæra tintinnabuli-stíl sínum eftir áralanga þögn. Hin verkin tvö á efnisskránni eru eftir staðartónskáld hátíðarinnar í ár, Mark Simpson, en hann er meðal fremstu tónlistarmanna sinnar kynslóðar í Bretlandi og hefur á síðustu árum vakið athygli víða um heim bæði sem tónskáld og klarinettuleikari. Hið fyrra, Darkness Moves, er fyrir einleiksklarinett og flutt af tónskáldinu sjálfu, en verkið dregur nafn sitt af titli ljóðasafns belgíska skáldsins Henri Michaux. Síðara verkið var samið fyrir sellóleikarann Leonard Elschenbroich sem frumflutti það í Wigmore Hall, og leikur það aftur hér í kvöld. Bæði verk eru á mörkum þessa heims og annars, á köflum martraðarkennd en öðrum stundum eins og hrífandi draumar, órar eða skynvillur – tónlistin býr yfir kraftmiklum hvötum en líka fíngerðum blæbrigðum.
Handhafar hátíðarpassa fá helmingsafslátt af miðaverði á utandagskrártónleikana í Mengi, en fullt miðaverð er 3.000 kr.
Dagskrá
Arvo Pärt: FratresMark Simpson: Darkness MovesMark Simpson: Night Music
Listafólk
Leonard Elschenbroich, Yura Lee, Víkingur Ólafsson, Mark Simpson