Hljómsveitin Ateria gaf út plötuna and_vari 15. október, og mun halda upp á það í Mengi,
laugardaginn 23. október!
Ása og Eir kynntust árið 2002 þegar Eir fæddist, og svo bættist Fönn í hópinn eftir sína eigin fæðingu árið 2005. Þau hafa oft spilað saman í gegnum tíðina á fjölskylduviðburðum ásamt öðrum frændsystkinum, en stofuðu svo hljómsveitina Ateria haustið 2017. Fjölskyldan hefur um árabil séð um æðarvarp í Húnavatnssýslu, og þau Ása, Eir og Fönn hafa tekið þátt í því og fengu nafn hljómsveitarinnar þaðan, en latneskt heiti æðarfugla er Somateria mollissima.
Ateria tók þátt í Músíktilraunum árið 2018 með það markmið að fá smá reynslu, svo það kom þeim mikið á óvart þegar þau höfðu sigur úr býtum. Í kjölfarið kom tímabil ringulreiðar, að reyna að finna út úr því hvernig á að vera hljómsveit og hvernig íslenska tónlistarsenan virkar. Ása og Eir fluttu til Spánar í eitt ár, 2018-2019, en hittust fyrir Airwaves í nóvember, lokuðu sig inni í æfingarými í viku og átu margar súkkulaðirúsínur til þess að geta spilað á hátíðinni. Hljómsveitin hefur líka spilað á Secret Solstice, Aldrei fór ég suður og Innipúkanum. Þau hafa lÍka spilað í Noregi og á Spáni. Vorið 2020 kom út lagið Órói sem Ása tók upp inná baði og mixaði (ekki inná baði).
Húsið opnar 20:30 | Miðaverð 2000 kr.