Back to All Events

Kraumur í Mengi II | Magnús Jóhann & Salóme Katrín

  • Mengi 2 Óðinsgata 101, Reykjavík Iceland (map)

Mengi og Aurora Foundation, stofnandi Kraumsverðlaunanna taka höndum saman og bjóða upp á skemmtilega fjögurra tónleika seríu sem haldin verður mánaðarlega í Mengi fram að næstu verðlaunaafhendingu í desember.

Mengi býður tónlistarfólki sem ýmist var tilnefnt eða vann til verðlauna fyrir sínar frábæru plötur árið 2020 og við hlökkum mikið til að fagna velgengni þeirra með tónleikaseríu á Óðinsgötunni.

Að þessu sinni leika Magnús Jóhann og Salóme Katrín tónlist sína fyrir gesti Mengis.
Tónleikarnir hefjast stundvíslega kl. 20:00 föstudaginn 8. október.
Húsið opnar kl. 19:30.
Miðaverð eru litlar 1.500 krónur og þá má fyrirfram panta hér.

>> Magnús Jóhann er fjölhæfur píanóleikari og tónskáld sem hefur vakið athygli fyrir fjölbreytt samsarf sitt við hina ýmsu aðila innan tónlistargeirans, en hann semur og spilar með vinsælustu hip-hop stjörnum landsins. Auk þess er hann virkur innan djasssenunnar og kemur reglulega fram með fremstu djassleikurum þjóðarinnar.
Hann hefur einnig samið tónlist fyrir kvikmyndir og leikhús.
Í haust kemur út samvinnuplata Magnúsar með goðsagnakennda tónskáldinu og bassaleikaranum Skúla Sverrissyni með tónverkum eftir Magnús Jóhann.

Magnús hefur gefið frá sér tvær sólóplötur, Pronto árið 2016, og Without Listening, sem kom út hjá plötuútgáfunni Reykjavík Records í nóvember 2020, en fyrir þá plötu var hann tilnefndur til Kraumsverðlaunanna.
Sálmur fyrir Sollu systur, síðasta lag plötunnar, var tilnefnt til tónverka ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum.

>> Nýstirnið Salóme Katrín kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 2019 þegar hún hóf að leika sína yndislegu tónlist fyrir landann.
EP platan Water kom út árið 2020 sem hlaut gríðargóðar viðtökur og í kjölfarið hreppti Salóme Kraumsverðlaunin. Platan var einnig valin plata vikunnar á Rás 2 fyrr á árinu.
Lögin fimm á WATER samdi Salóme á Ísafirði og í Reykjavík árin 2017 til 2019.
Á henni syngur hún og leikur á slaghörpu, en við sögu koma fjölmargir gestir sem fremja listir sínar á strengjahljóðfæri, blásturs- og slagverk.
Yfir vötnum svífur andi Reginu Spektor, en einnig má heyra óm af einbeittum tilfinningaleik Kate Bush.

>> Kraumsverðlaunin eru veitt fyrir þær íslensku hljómplötur sem þykja hafa skarað fram úr á árinu hvað varðar gæði, metnað og frumleika.