Krakkamengi verður haldið í Mengi sunnudaginn 7. nóvember kl. 12:00
Fjölbreytt fuglalíf og göngutúr niður að sjó - þátttökuverk, margfaldaður víóluhljómur og mini-ópera með rafundirleik eru meðal þess sem tónleikagestir mega eiga von á að upplifa á öðrum Krakkamengistónleikum vetrarins.
Víóluleikarinn Guðrún Hrund Harðardóttir
og söngkonan Heiða Árnadóttir leiða okkur í gegn um skemmtilega, fallega, dramatíska og örlítið draugalega dagskrá.
Verk eftir Ásbjörgu Jónsdóttur og Gunnar Andreas Kristinsson hljóma á tónleikunum og tilraunatónskáldið John Cage kemur einnig við sögu.
Krakkar í hópi áheyrenda fá líka að taka þátt í að skapa splunkunýtt tónverk sem Guðrún Hrund og Heiða flytja.
Öll velkomin og aðgangur ókeypis.
Um tónleikaröðina:
Mengi í samstarfi við Guðrúnu Hrund Harðardóttur víóluleikara kynnir skemmtilega tónleikaseríu fyrir börn og forvitna áheyrendur á öllum aldri veturinn 2021-2022!
Guðrún ásamt góðum gesti kynnir ólíkar tónlistarstefnur fyrir börnum og fjölskyldum þeirra í afslöppuðu umhverfi í Mengi á fernum sunnudagstónleikum í haust og vetur. Á dagskránni
verða verk frá barokktímanum til samtímans. Börnin verða hvött til virkrar hlustunar og þátttöku.
Krakkamengi vakti athygli og hlaut góðar viðtökur sem tilraunasmiðja fyrir börn árið 2016, en þá var tónlistarmaðurinn Benedikt H. Hermannsson forsprakki og umsjónarmaður verkefnisins.
Tónleikaserían er styrkt af Barnamenningarsjóði.