Tvíeykið Sölvi Kolbeinsson og Magnús Trygvason Eliassen, sem lengi hafa leikið saman, fá Hilmar Jensson gítarleikara til liðs við sig á tónleikum í Mengi miðvikudagskvöldið 22. desember.
Þeir lofa gleði og góðri skemmtun og vonast til þess að sjá sem flesta.
Húsið opnar kl. 20:30
Tónleikarnir hefjast kl. 21:00
Miðaverð er 2.500 krónur og hér má gulltryggja sér sæti á viðburðinn:
https://forms.gle/izHXnPVoL4kGRZ7s5
Sölvi Kolbeinsson er saxófónleikari og Magnús Trygvason Eliassen trommu- og slagverksleikari og hafa þeir leikið saman með hinum ýmsum hópum í íslensku tónlistarlífi undanfarin ár. Þeir komu fyrst fram sem dúó árið 2015 og hafa síðan þá stigið í allnokkur skipti á stokk í Mengi sem og á öðrum tónleikastöðum.
Standardar og aðrir smellir eru þeirra ær og kýr og á tónleikum má gjarnan finna verk eftir góðkunningja djassins líkt og Thelonious Monk, John Coltrane, Paul Motian, Bud Powell og Antônio Carlos Jobim.
Hilmar Jensson þarf vart að kynna fyrir djassáhugafólki. Hann hefur verið í fararbroddi framsækinna djasstónlistarmanna á Íslandi og er talinn vera einn besti gítarleikari Íslands.