Back to All Events

Hljómandi des(ember) | Sigurður Halldórsson

  • Mengi 2 Óðinsgata 101, Reykjavík Iceland (map)

Sigurður Halldórsson, sellóleikari kemur fram á tónleikum í Mengi fimmtudaginn 30. desember kl. 21:00. Yfirskrift tónleikanna er Hljómandi Des(ember). Langt er orðið síðan Sigurður kom fram einn síns liðs á tónleikum og því hvetjum við áhugasama til að tryggja sér miða að þessa einstöku tónleika.

Efnisskrá kvöldsins:

G B Vitali (1632-92) Passa Galli

William Walton (1902-83) Passacaglia (1982)

D Gabrielli (1659-90) Ricercare #7

Hafliði Hallgrímsson (f.1941) Solitaire (1970/91)

J S Bach (1685-1750) Suite #2

Tónlistin á þessum tónleikum samanstendur af verkum frá síðari hluta 20. aldar sem kallast á við nokkur barokkverk. Hér er farin sú leið að leika öll verkin á barokkselló, þ.e. með girnisstrengjum, í lágri tónhæð, nánar tiltekið lítilli tvíund neðar. Auk þess að vísa í árstímann og mánuðinn, þá vísar titill tónleikanna í þessa nálgun.
Tónmiðja allra verkanna er nótan D, en sú nóta í barokktónhæð er „hljómandi Des“ í nútímatónhæð. Ýmsar rannsóknir hafa leitt í ljós að lægri tónhæð eigi betri samhljóm með líkamlegri skynjun manna, og stuðli að meiri vellíðan, en hækkandi tónhæð gegnum tíðina á sér orsök í sífellt meiri kröfum um að hljómur akústískra hljóðfæra nái að berast betur í stærri sölum, þ.e.a.s. tónninn sé ágengari, sterkari og skýrari þegar strengirnir eru spenntir meira.

Á þeim forsendum er síst ástæða til að beita þeirri nálgun í tónleikastaðnum Mengi. Þess vegna er tilvalið að gera tilraun með að flytja nýlega tónlist í lægri tónhæð hér á þessum stað innan um barokkið og njóta þess að leyfa lægri tíðni bylgjast um viðstadda. Nýrri verkin á tónleikunum, frá sjöunda og níunda áratug 20. aldar, hafa beinar tilvísanir í barokktónlist: Passacaglian var algeng tónsmíðaaðferð á barokktímanum, eins konar stef og tilbrigði við það, og er Passa Galli Vitalis höfð hér sem eins konar upphitun að verki Waltons og dæmi um hvernig tónlistarhugtök áttu það til að ummyndast í gegnum tíðina, mismunandi milli landa og tungumála.

Fyrsti þáttur verksins Solitaire, Oration - eða ávarp, notast við dramatískan frásagnarstíl, eða retórík, sem er eitt höfuðeinkenni barokkstílsins. Þá er lokakaflinn, Jig, dansform sem mjög margar barokksvítur enduðu á, til dæmis allar einleikssvítur J.S. Bachs, sem tóku þó franska mynd orðsins, gigue, enda teljast svíturnar í frönsku svítuformi. En dansinn jig er frá Bretlandseyjum. Flutningur verksins Solitaire er í tilefni af 80 ára afmæli tónskáldsins Hafliða Hallgrímssonar.

Húsið opnar kl. 20:30 | Tónleikarnir hefjast kl. 21:00 | Miðaverð er 2.500 kr.
Hér má taka frá miða á viðburðinn: https://forms.gle/AUQTFo32kggXJaKe8

Earlier Event: December 29
Atli Arnarsson & Halldór Eldjárn
Later Event: January 7
Tu Ha? Tu Bjö!