Laugardaginn 6. febrúar taka tónleikastaðir í Reykjavík þátt í Open Club Day sem hefur það að markmiði að vekja athygli á þeirri starfsemi sem fer fram á tónleikastöðum, þeim störfum sem þeir skapa og því mikilvæga hlutverki sem þeir gegna fyrir menningarlíf borga. Vegna heimsfaraldurs verður ekki hægt að standa fyrir viðburðum á tónleikastöðunum og því verður alfarið haldið upp á daginn á netinu í ár. Dagskrá Open Club Day í Reykjavík í ár felst fyrst og fremst í því að minna fólk á tónleikastaðina sem hafa flestir verið lokaðir eða þurft að vera með starfsemi í lágmarki nær allt síðast liðið ár.
Laugardaginn 6. febrúar kl 14:00 verður streymt frá öllum tónleikastöðum sem taka þátt í deginum í Reykjavík samtímis sem tákn um samstöðu á fordæmalausum tímum og til að minna á tilvist og mikilvægi staðanna. Staðirnir sem taka þátt í Open Club Day Reykjavík 2021 eru: Gaukurinn, Hannesarholt, R6013, Gamla Bíó & Petersen Svítan, Mengi, Hard Rock Café og Prikið.
Open Club Day er verkefni Live DMA með stuðningi frá Creative Europe. Það er Tónlistarborgin Reykjavík sem hefur veg og vanda af skipulagningu dagsins hér í samstarfi við tónleikastaðina. Í sameiginlegri yfirlýsingu frá skipuleggjendum og þátttakendum í Open Club Day um alla Evrópu kemur fram að grípa skuli tækifærið til að auka skilning stjórnvalda og annarra á erfiðu rekstrarumhverfi staðanna sem þó búa yfir þeim krafti að sameina fólk og fylla samfélög okkar af lífi.