Mengi og Aurora Foundation, stofnandi Kraumsverðlaunanna býður tónlistarfólki sem ýmist var tilnefnt eða vann til þeirra frábæru verðlauna fyrir plötur sínar árið 2021 til að spila í tónleikaseríu sem haldin verður reglulega í Mengi.
Við hlökkum mikið til að fagna velgengni þeirra á Óðinsgötunni!
Að þessu sinni leikur Slummi og hljómsveitin BSÍ tónlist sína fyrir gesti Mengis auk þess sem nýtt tónlistarmyndband verður frumsýnt.
>> Hljómsveitin BSÍ fagnar útgáfu rafrænu smáskífunnar ‘Relax, Blabla’ með tónleikum og frumsýningu á myndbandi við lagið ‘Jelly Belly’, í leikstjórn Uglu Hauksdóttur!
BSÍ eru bestu vinirnir Sigurlaug Thorarensen (trommur & söngur) og Julius Pollux (bassi & tá-synthi). Þau elska að spila á tónleikum og gefa út tónlist sína á eigin vegum, með hjálp frá frábæru vinum sínum hjá Why Not? Plötum, post-dreifingu og tomatenplatten (Berlin).
>> Slummi er eitt af sólóverkefnum tónlistarmannsins Gumma Arnalds, sem einblínir á skemmtilega og jafnframt slímuga danstónlist. Slummi er teiknaður af hinum stórfenglega susan_creamcheese og hefur gefið út eina plötu hjá útgáfunni Spectral Assault Records og hver veit nema það sé önnur á leiðinni!
>> Kraumsverðlaunin eru veitt fyrir þær íslensku hljómplötur sem þykja hafa skarað fram úr á árinu hvað varðar gæði, metnað og frumleika.
Myndbandsfrumsýningin hefst stundvíslega kl. 20:30 og tónleikar í kjölfarið. Húsið opnar kl. 20:00.
Ráðlagt miðaverð er 1.500 krónur (en engum verður vísað frá!)