Frá draumi til draums
Íslensk tónlist, samin fyrir strengjakvartett, verður í forgrunni í fjölbreyttri dagskrá með nýlegum og eldri verkum eftir karla og konur. Íslenskir strengjakvartettar heyrast sjaldan á tónleikum þó flest tónskáldanna okkar spreyti sig einhvern tímann á ferlinum á því að skrifa kvartett. Of margir þeirra hljóta þau örlög að hljóma bara einu sinni á tónleikum og svo aldrei aftur.
Við teljum mikilvægt að þessir kvartettar fái að hljóma aftur á tónleikum. Fyrir nýja áheyrendur. Túlkaðir af nýjum flytjendum. Og öðlast þannig framhaldslíf. Titillinn “Frá draumi til draums” vísar í strengjakvartett Jóns Nordals frá árinu 1996, sem er elsta verk tónleikanna, en önnur verk þessarar draumaefnisskrár Strengjakvartettsins Gróar, eru eftir Svein Lúðvík Björnsson, Þuríði Jónsdóttur og Báru Gísladóttur.
Miðar á TIX.
Efnisskrá:
Jón Nordal (f. 1926): Frá Draumi til draums (1996)
Þuríður Jónsdóttir (f. 1960): Fána (2018)
Sveinn Lúðvík Björnsson (f. 1962): ...og í augunum blik minninga (2007)
Bára Gísladóttir (f. 1989): otoconia (2017)
Um flytjendur:
Þær Gunnhildur, Gróa Margrét, Guðrún Hrund og Hrafnhildur leika nú í fyrsta skipti saman sem strengjakvartettinn Gró. Þær hlutu listamannalaun úr úthlutun Listamannalauna árið 2021, til þess að vinna saman að verkefni sem var frestað vegna kórónuveirufaraldursins og stærra verkefni að lokum fellt niður. Stöllurnar fengu þá samþykkta tillögu að nýrri efnisskrá með íslenskum strengjakvartettum, kvartettum sem þær völdu í sameiningu og fannst spennandi að takast á við og leyfa íslenskum áheyrendum að njóta.
Þær eru allar reyndir kammermúsíkspilarar og hafa margoft komið fram saman á tónleikum með stórum og litlum tónlistarhópum, svosem Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Kammersveit Reykjavíkur, Barokkbandinu Brák og kammerhópnum Jöklu.
Miðar fæst hér.