Tvískiptir tónleikar með akústískum blásarakvartett og elektrónísku dúói raftónlistamanns og trommara. Nýtt frumsamið efni og spuni í belg og biðu. Óræðar hugvekjur. Samhæfðir hljóðskúlptúrar. Óvæntir árekstrar. Þeysireið á ótroðnar slóðir.
Dyrnar opnast kl. 19:30, aðgangseyrir eru litlar 3.500 krónur og leikar hefjast kl. 20:00.
Tu Ha? Tu Bjö!
Tu Ha? Tu Bjö snýr aftur! Tveir trompetar, tveir saxófónar, tveir Tumar og ef Hannes héti Björgvin eða Björgvin héti Hannes væri þessi kvartett fullkomlega samhverfur en blessunarlega er hann það ekki. Innan um kosmós þarf kaós, í listigarðinn órækt og innan um samhljóm óhljóð. Þessi lúðraflokkur hóf leika hér í Mengi við Óðinsgötu og hefur síðan komið meðal annars fram á Jazzhátíð Reykjavíkur. Nú stefnir sveitin í hljóðver og upptökur á debútplötu sinni þar sem liðsmenn flétta tónsmíðar sínar saman við frjálsan spuna. Kosmós við kaós. Tu Ha? Tu Bjö!
Tumi Torfason – trompet
Hannes Arason – trompet
Tumi Árnason – tenór saxófónn
Björgvin Ragnar Hjálmarsson – tenór saxófónn
Knackered/SMK
Tónskáldið og hljóðlistakonan Ida Schuften (Knackered) og trommarinn Sólrún Mjöll Kjartansdóttir (SMK) byrjuðu að spila saman í dúói snemma sumars 2024. Þetta munu vera þeirra fyrstu tónleikar þar sem þær koma saman og mun spuni, hljóðgervlar, áhugaverðir taktar og furðuhljóð koma við sögu. Allt er leyfilegt og ekkert er rangt.
Ida Schuften Juhl – elektróník
Sólrún Mjöll Kjartansdóttir – trommur