Tómleikar

Mengi kynnir fjögurra tónleika seríu, Tómleika, með frábæru listafólki sem fram fór á alnetinu frá desember og fram í febrúar. Verkefnið hlaut styrk frá Reykjavíkurborg og skartar kanónum á borð við Þorleif Gauk Davíðsson, Sideproject, Sóleyju Stefánsdóttur og Úlf Eldjárn.

Dagskrá seríunnar var svohljóðandi:

✿ Þorleifur Gaukur Davíðsson :: 18. desember 2020
✿ Sideproject :: 1. febrúar 2021
✿ Sóley Stefánsdóttir :: 4. febrúar 2021
✿ Úlfur Eldjárn :: 8. febrúar 2021

Myndvinnsla: Patrik Ontkovic
Upptaka og hljóðvinnsla: Guðmundur Arnalds

Um tómleikana:

Þorleifur Gaukur er einn eftirsóttasti session tónlistarmaður landsins og erum við afar glöð að fá hann liðs við okkur í Mengi. Þorleifur Gaukur hefur leikið víða með Kaleo og sést hann gjarnan á hljómleikum eða skjánum með KK. Í gegnum tíðina hefur hann spilað á ótal plötum með listamönnum eins og Mugison, Bríeti, Baggalúti og Club D'elf. Í Mengi flytur hann sitt fyrsta sólósettið, spunasett, þar sem tónlistarstefnur mætast sem hafa haft hvað mest áfrif á hann sjálfan. Allt frá andlegum stefum til fiðlutónlistar til gamalla popplaga. Við sjáumst á skjánum!

Um tómleikana:

Sideproject er hliðarverkefni hins flogaveika trommara Korter í flog, Örlygs Arnalds auk Hjálmars Karlssonar og Atla Finnssonar. Sideproject spilar tilraunakennda raftónlist, sem hefur verið kölluð „hrein sýra“, „besta hljómsveit í heimi“ og svo framvegis. Sideproject gaf nýverið út stuttskífu sem leit dagsins ljós í lok janúar.

Um tómleikana:

Fjórða breiðskífa Sóleyjar, Mother Melancholia kemur út síðar á árinu. Síðustu tíu ár hefur Sóley ferðast nánast viðstöðulaust um heiminn til að flytja tónlist sína en á tímum faraldurs færast tónleikarnir yfir í streymi. Á Tómleikum fékk hún með sér einvalalið tónlistarfólks en sveitina skipuðu:

Sóley Stefánsdóttir á píanó, hljómborð og söng
Albert Finnbogason á bassi, moog, teip og gítar
Jón Óskar Jónsson á trommur
Kristín Þóra Haraldsdóttir á víólu
Unnur Jónsdóttir á selló

Um tómleikana:

Úlfur Eldjárn hefur starfað sem tónlistarmaður frá unga aldri, bæði sjálfstætt og með hinum ýmsu hljómsveitum, er m.a. meðlimur í Orgelkvartettinum Apparat sem hefur ferðast með nokkur hundruð kíló af gömlum rafmagnsorgelum um víða veröld. Úlfur hefur samið töluvert af tónlist fyrir leikhús, sjónvarp og aðra miðla og hefur verið tilnefndur til Grímu- og Edduverðlauna fyrir verkefni á því sviði.

Á Tómleikum spila:
Úlfur Eldjárn á píanó, syntha, sax o.fl.
Halldór Eldjárn á víbrafón o.fl.
Karl Pestka á víólu og rafmagnsfiðlu
Skúli Sverrisson á bassa
Magnús Eliassen á trommur

Guðmundur Arnalds