Aurora og Mengi í samstarf
Aurora og Mengi undirrita samstarfssamning
Mengi, menningarhús á Óðinsgötu og Aurora velgerðarsjóður undirrituðu
nýverið nýjan samstarfssamning. Aurora mun styrkja starfsemi Mengis
næstu tvö árin en nokkrir viðburðir á vegum sjóðsins eru fyrirhugaðir
á tímabilinu og munu fara fram í Mengi.
„Við erum mjög ánægð að hefja samstarf við Mengi og finna um leið stað
þar sem við getum haldið spennandi viðburði í Reykjavík” segir Regína
Bjarnadóttir framkvæmdastjóri Auroru en meðal viðburða í mengi á vegum
sjóðsins verða Kraumsverðlaunin árlegu sem Aurora hefur staðið að
síðan árið 2008 og tónleikaröð í tengslum við þau.
Aurora velgerðarsjóður var settur á laggirnar árið 2007 að frumkvæði
Ingibjargar Kristjánsdóttur, landslagsarkitekts og Ólafs Ólafssonar,
athafnamanns og frumkvöðuls en hlutverk sjóðsins er að styðja við
þróun og menningu með verkefnum sem örva samfélög á sjálfbæran máta.
Starf sjóðsins er fyrst og fremst fólgið í uppbyggingarverkefnum í
Sierra Leone en einnig hefur Aurora myndað frjósaman grundvöll fyrir
skapandi samstarf milli listamanna og handverksfólks þaðan og
íslenskra hönnuða og tónlistarfólks.
Aðstandendur Mengis taka samstarfinu fagnandi. „Við erum ótrúlega glöð
að Aurora vilji styðja við okkar málstað sem er náttúrulega að
viðhalda vettvangi fyrir skapandi listamenn í Reykjavík” segir Ólöf
Arnalds, söngkona og ein af stofnendum Mengis.
Mengi er fjölnota viðburðarými á Óðinsgötu 2 sem rekið er af
listamönnum og hefur skipað sér sess sem mikilvægur vettvangur fyrir
listviðburði af ýmsum toga. Mengi er ekki rekið í hagnaðarskyni heldur
er um að ræða hugsjónarfélag þar sem tilgangurinn er að hlúa að
grasrótinni og arfleifð skapandi lista, hugsunar og samstarfs.