Kæru tónlistarunnendur,
Kramur tónlistarsjóður og Mengi taka höndum saman og bjóða upp á fjöruga fjögurra tónleika seríu sem haldin verður mánaðarlega í Mengi fram að næstu verðlaunaafhendingu í desember.
Mengi býður tónlistarfólki sem ýmist var tilnefnt eða vann til verðlauna fyrir sínar frábæru plötur árið 2020 og við hlökkum mikið til að fagna velgengni þeirra með tónleikaseríu á Óðinsgötunni.
Ingibjörg Turchi og Asalaus ríða á vaðið og hefjast tónleikar kl. 20:00 föstudaginn 3. september. Húsið opnar kl. 19:00.
Miðaverð eru litlar 1.000 krónur og léttar veitingar verða í boði Kraums.
>> Asalaus er sviðsnafn tónlistarkonunnar Ásu ÖnnuÓlafsdóttur. Asalaus byrjaði sem verkefni í Listhópum Hins Hússins sumarið 2020 sem snerist um það að semja tónlist og að flytja hana víðsvegar um miðbæ Reykjavíkur. Í lok sumars gaf hún svo út plötuna Asaleysing sem samanstendur af tónleikaupptökum sem gerðar voru á meðan verkefninu stóð. Platan var síðan tilnefnd til Kraumsverðlaunanna seinna um árið. Verkefnið fékk aftur styrk hjá Listhópum Hins hússins sumarið 2021 og er afrakstur þess væntanlegur á plötu í haust.
>> Bassaleikarinn og tónskáldið Ingibjörg Elsa Turchi hefur verið afar sýnileg í íslensku tónlistarlífi síðustu ár og hefur komið fram með mörgum af ástsælustu listamönnum þjóðarinnar, svo sem Emilíönu Torrini, Bubba Morthens, Teiti Magnússyni og Stuðmönnum svo fátt eitt sé nefnt. Einnig hefur hún samið verk fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands en það var frumflutt í apríl 2021 á vegum Ung-Yrkju verkefnis SÍ og Tónverkamiðstöðvar. Þar að auki kemur Ingibjörg reglulega fram undir eigin nafni þar sem hún kannar hljóðheim rafmagnsbassans, sem er hennar aðalhljóðfæri.
Ingibjörg gaf út stuttskífuna Wood/Work árið 2017 þar sem bassinn var í aðalhlutverki. Í júlí 2020 gaf Ingibjörg svo út sína fyrstu plötu í fullri lengd, Meliae, og hélt áfram að víkka út hljóðheim sinn með hjálp hljómsveitar sinnar. Á plötunni ægir saman djassi, tilraunamennsku og naumhyggju í ómþýðri blöndu. Endurtekningar eru í fyrirrúmi. Hljóðfæri á borð við saxófón, gítar og bassa eru afbyggð með hjálp raftækja og síðan byggð upp aftur. Þannig skapa Ingibjörg og félagar einstakan og dáleiðandi hljóðheim þar sem hið kunnuglega verður framandi á ný. Árið 2020 hlaut platan Meliae Kraumsverðlaunin, var valin plata ársins af Morgunblaðinu og straum.is og fékk 5 stjörnur í gagnrýni Morgunblaðsins. Á Íslensku tónlistarverðlaununum 2021 hlaut Ingibjörg sex tilnefningar og hlaut tvenn verðlaun, annars vegar fyrir plötu ársins í flokki Djass-og blústónlistar og fyrir Upptökustjórn í Opnum flokki.
>> Kraumur tónlistarsjóður var stofnaður 2008 af Aurora velgerðarsjóði í þeim tilgangi að efla íslenskt tónlistarlíf, fyrst og fremst með stuðningi við unga listamenn, auðvelda þeim að vinna að listsköpun sinni og koma verkum sínum á framfæri innanlands sem utan.