Back to All Events

Krakkamengi – Mozart

  • Mengi 2 Óðinsgata 101, Reykjavík Iceland (map)

Tónleikaröðin Krakkamengi heldur nú áfram í umsjá Guðrúnar Hrundar Harðardóttur víóluleikara sem að þessu sinni fær til liðs við sig fiðluleikarann Hrafnhildi Atladóttur og munu þær flytja Dúó í G-dúr KV 423 eftir Wolfgang Amadeus Mozart auk nokkurra lítilla tónverka sem Mozart samdi barn að aldri. Guðrún Hrund og Hrafnhildur segja sögur af Mozartfjölskyldunni og undrabarninu og prakkaranum Wolfgang Amadeus og stóru systur hans Nannerl. Og af því að það eru alveg að koma jól veltum við í sameiningu fyrir okkur hvernig Mozartfjölskyldan gæti hafa undirbúið og fagnað jólum í Salzburg fyrir rúmlega 250 árum. Hvaða jólalög skyldi Mozartfjölskyldan hafa sungið? Og samdi snillingurinn Mozart kannski jólalag? Hver veit nema við brjótumst út í söng!  Í Krakkamengi leitumst við við að skapa afslappað andrúmsloft þar sem áheyrendum á öllum aldri líður vel og njóta þess að hlusta á lifandi tónlistarflutning. Við reynum að kveikja forvitni tónleikagesta og eiga samtal við börnin um hve margslungin tónlistin getur verið. 

Aðgangur er ókeypis.

Guðrún Hrund Harðardóttir er víóluleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammersveit Reykjavíkur, Alþjóðlegu barokksveitinni í Reykjavík og Barokkbandinu Brák og stundar nú nám við listkennsludeild LHÍ. Guðrún Hrund stundaði framhaldsnám í víóluleik í Köln í Þýskalandi og Haag í Hollandi. Fyrir nokkrum árum var hún í tónleikaferð með Sinfóníuhljómsveit Íslands og dvaldi í nokkra daga í Salzburg í Austurríki og heimsótti þá æskuheimili Mozarts og fékk tækifæri til að skoða sýningu með handritum af verkum hans. Hún fékk einnig tækifæri til að handleika litla fiðlu sem Wolfgang Amadeus spilaði á sem barn og hafði það mikil áhrif á hana. Guðrún Hrund býr í Reykjavík og á fjögur börn.