Back to All Events

Kaveh Akbar í Mengi

  • Mengi 2 Óðinsgata 101, Reykjavík Iceland (map)

Íransk-bandaríska ljóðskáldið Kaveh Akbar er stjarna í heimi bandarískrar ljóðlistar um þessar mundir. Hann sló í gegn með sinni fyrstu ljóðabók Calling a Wolf a Wolf árið 2017, og fylgdi henni eftir árið 2021 með Pilgrim Bell. Báðar bækurnar hafa hlotið fjölmörg verðlaun og viðurkenningar, ásamt einróma lofi gagnrýnenda.

Þann 16. september mun Kaveh Akbar spjalla við Fríðu Ísberg, Brynju Hjálmsdóttur og Þórdísi Helgadóttur í Mengi um verk sín og ljóðlistina almennt, og lesa upp. Frítt verður inn á viðburðinn.
Akbar er fæddur í Teheran í Íran og yrkisefni hans eru gjarnan persnesk arfleifð hans, menning og trúarbrögð, auk þess hvernig það er að vera Bandaríkjamaður af arabískum uppruna. Einnig er hann berorður um eigin glímu við alkóhólisma og fíkn. Skáldskapur hans er persónulegur, innblásinn, margræður og umfram allt sprottinn af lotningu fyrir því sem skáldið sér sem hið heilaga í mannssálinni og heiminum, án þess að veigra sér við því að takast á við það allra ljótasta og grimmasta.

Akbar kennir við Iowa-háskóla og víðar í Bandaríkjunum, hann er ljóðaritstjóri hjá The Nation og með fastan dálk í Paris Review. Ljóð hans hafa m.a. birst í The New Yorker, The New York Times, Paris Review og Best American Poetry. Þá hefur hann haft mikið frumkvæði að því að breiða út ljóðlist almennt, sérstaklega meðal yngra fólks gegnum samfélagsmiðla og á vefriti sínu, Divedapper.
Heimsókn Kaveh Akbar í september er í boði Svikaskálda, Brynju Hjálmsdóttur og Reykjavík Bókmenntaborgar UNESCO.

Earlier Event: September 13
Ljóðakvöld Yrkja #2