MENGI hlýtur Heiðursverðlaun
Mengi hlaut Heiðursverðlaun Norræna tónskáldaráðsins sem afhent voru í Ráðhúsi Reykjavíkur í vikunni á opnunartónleikum Norrænna músíkdaga. Þórunn Gréta Sigurðardóttir, tónskáld og formaður Tónskáldafélags Ísland, afhenti Ólöfu Arnalds, meðstofnanda og Skúla Sverrissyni, listrænum stjórnanda, verðlaunin við mikinn fögnuð viðstaddra. Í ræðu sinni stiklaði Þórunn Gréta á stóru yfir árangurinn af óhagnaðardrifinni starfsemi Mengis sem fyllir bráðum tíu ár, en staðurinn hefur haldið ríflega 2000 tónlistarviðburði þar sem stærstur hluti innkomunnar hefur undantekningarlaust runnið beint til listamanna. Einnig kom Þórunn Gréta inn á að margar nýjar hugmyndir og tónverk sem fæddust í Mengi hafa í framhaldinu fengið mikla viðurkenningu hér heima og á alþjóðavettvangi, sem hefur gefið listamönnunum enn frekara færi á að hafa atvinnu af sinni list.